Innlent

Dæmdur fyrir vörslu barnakláms

Aron Örn Þórarinsson skrifar

Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi mann fyrir vörslu barnakláms á mánudaginn. Ákvörðun um refsingu mannsins var frestað og fellur hún niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms haldi maðurinn almennt skilorð. Manninum er gert að greiða rúmlega 82.000 krónur í sakarkostnað.

Maðurinn var ákærður „fyrir kynferðisbrot með því að hafa á árunum 2005 og 2006 haft í vörslu sinni, á útværðum hörðum diski og tveimur hörðum diskum í fartölvu af gerðinni HP Pavilion, átta hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt."

Samkvæmt rannsóknargögnum lögreglunnar var lögreglan kvödd að Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík 21. desember 2005 vegna gruns fangavarða um að refsifangi þar væri með barnaklám í tölvu sinni. Við yfirheyrslur á fanganum greindi hann frá því að hann hafi keypt tölvuna hjá þeim dæmda og hann hafi aldrei vitað að þar væri barnaklám að finna. Í þeirri tölvu fundust fimm hreyfimyndir sem lögreglan taldi vera barnaklám.

Þann 31. mars 2006 gerði lögreglan húsleit hjá þeim dæmda á Akureyri. Í tölvubúnaði mannsins fundust þrjár aðrar hreyfimyndir sem sýna börn á klámfenginn hátt, og því átta myndir samtals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×