Innlent

Bitlaus peningastefna

Kristinn Hrafnsson skrifar

Seðlabankinn bendir á að það dragi hægt og bítandi úr verðbólgu en vill annars ekki svara gagnrýni Jóhönnu Sigurðardórtur, félagsmálaráðherra á bitlausa hávaxtastefnu bankans. Jóhanna gagnrýnir einnig bankana fyrir að haga sér eins og ríki í ríkinu.

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans og segir að hún gangi ekki til lengdar. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hún að háir stýrivextir séu íþyngjandi fyrir almenning og smá og meðalastór fyrirtæki. Aftur á móti geti stórfyrirtækin að mestu leyti fjármagnað sig með erlendum lánum og sleppi því við háu vextina.

Jóhanna gagnrýnir bankana harðlega og segir þá haga sér eins og ríki í ríkinu. Þeir skaffi erlenda fjármagnið og setji það á lánamarkaðinn. Þetta valdi miklu um þá þenslu sem nú er, meðal annars á húsnæðismarkaðnum, og birtist einnig í aukinni skuldasöfnun heimilanna. Þetta eigi ríkan þátt í því að hagstjórn Seðlabankans sé dæmd til að mistakast.

Þetta er fáheyrð gagnrýni á bankana og bitleysi í beitingu hagstjórnartækja Seðlabankans frá ráðherra í ríkisstjórninni. Seðlabankinn er tregur til að svara þessari gagnrýni en Ingimundur Friðriksson, bankastjóri Seðlabankans segist þó ósammála ráðherranum. Hann segir það brýnt hagsmunamál fyrir fyrirtæki og heimili að ná tökum á verðbólgu. Hann bendir á að það dragi hægt og bítandi úr verðbólgunni og vonandi haldi sú þróun áfram.

Að öðru leyti svarar Seðlabankinn ekki þessum föstu skotum úr stjórnarráðinu - sem þó er ekki síður beint að viðskiptabönkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×