Innlent

Tveir mótmælendur enn í haldi lögreglu

Tveir mótmælendur, á vegum samtakanna Saving Iceland, eru enn í haldi lögreglunnar eftir átök milli þeirra og lögreglu í gær. Alls voru fimm handteknir eftir að hópurinn stöðvaði umferð í miðborg Reykjavíkur. Lögregla sleppti tveimur nú rétt eftir hádegið í dag. 

Félagar þeirra söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu í gærkvöldi eftir handtökurnar til að halda mótmælum sínum þar áfram. Um sjötíu manna hópur á vegum Saving Iceland lagði af stað frá Perlunni um klukkan hálf fimm í gær og lá leiðin niður í bæ. Hópurinn vildi mótmæla stóriðjustefnu stjórnvalda.

Ekkert leyfi hafði fengist fyrir göngunni, sem hafði truflandi áhrif bæði á ökumenn og gangandi vegfarendur. Þegar á Snorrabrautina var komið reyndi lögreglan að leysa gönguna upp þar sem hún stöðvaði umferð til norðurs en gatan er ein af stofnbrautum í neyðarakstri í borginni. Lögreglan þurfti að brjóta glugga á bíl sem ók fremstur en við það æstist fólkið og þurfti að handtaka fjóra. Síðar var fimmti maðurinn handtekinn en bílstjóranum sleppt. Fjórir þeirra handteknu eru útlendingar.

Einn af skipuleggendum göngunnar óttast ekki að lætin í gær varpi skugga á tilgang mótmælanna.

Yfir fjörtíu lögreglumenn tóku þátt í aðgerðum þegar mest var. Þeir sem handteknir voru eiga yfir höfði sér ákærur fyrir skemmdaverk og fyrir að hindra lögregluna við störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×