Innlent

Einar Oddur Kristjánsson látinn

Gissur Sigurðsson skrifar

Einar Oddur Kristjánsson Alþingismaður er látinn. Hann varð bráðkvaddur í fjallgöngu á Kaldbak, á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, laust fyrir hádegi í gær. Geir H. Haarde forsætirráðherra minnist Einars Odds sem baráttumanns og áhrifamanns í stjórnmálum og atvinnulífi.

Einar Oddur fæddist á Flateyri árið 1942 og var á á sextugasta og fimmta aldursári. Einar varð ungur umsvifamikill í atvinnulífinu á Flateyri með rekstur útvegsfyrirtækjanna Kambs og Hjálms. Hann tók einnig virkan þátt í öllum framfarafélögum vestra og var í forystusveit stofnana Sjálfstæðisflokksins.

Þá var hann litríkur formaður Vinnuveitendasambandsins í þrjú ár og fékk um það leyti viðurnefnið „Bjargvætturinn frá Flateyri." Hann var einnig einn aðalhöfundur þjóðarsáttarinnar svonefndu. Hann fór á þing fyrir Vestfirðinga árið 1995 og var á þingi til dauðadags. Geir H. Haarde forsætisráðherra segir við ótímabært fráfall Einars Odds að þjóðin sjái á bak sterkum forystumanni.

Einar lætur eftir sig eiginkonuna Sigrúnu Gerðu Gísladóttur og þrjú uppkomin börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×