Innlent

Mikil aukning á akstri undir áhrifum fíkniefna

Gissur Sigurðsson skrifar

Lögreglan á Selfossi tók fjóra ökumenn úr umferð í nótt grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja, en aðeins einn vegna ölvunar. Þetta eru fleiri svona atvik á einni nóttu á Suðurlandi en nokkru sinni fyrr og til samanburðar var aðeins einn tekinn grunaður um ölvunarakstur á svæði lögreglunnar í Árnessýslu í nótt.

Akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja færist mjög í vöxt og komu um það bil 60 slík mál til kasta lögreglu á landinu öllu í síðasta mánuði, eða tvö á dag að meðaltali. Til marks um aukninguna er meðaltal fyrstu sex mánuði ársins 35 mál á mánuði.

Ástæðu þessarar miklu aukningar svona mála frá fyrri árum, sem líkja má við sprengingu, má meðal annars rekja til nýrra umferðarlaga sem tóku gildi í fyrra. Samkvæmt þeim missa ökumenn réttindi ef minnsta arða fíkniefna eða lyfja finnst í blóði þeirra. Áður var slíkt háð flóknu læknisfræðilegu mati. Þá hefur lögregla fengið fullkominn tækjabúnað til að mæla lyf og fíkniefni í blóði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×