Innlent

Hornhimnubanka komið á fót á augnlækningadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss innan skamms

Svokölluðum hornhimnubanka verður komið á fót á augnlækningadeild Landspítala Háskólasjúkrahúss innan skamms. Þannig munu íslendingar eiga meiri möguleika en áður á að fá betri sjón.

Augnlækningadeildin hefur þurft á auknu fjármagni að halda til að geta fylgt eftir þeim hröðum breytingum sem sem átt hafa sér stað í augnlækningum. Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar ákváðu að styðja við deildina með tuttugu og fimm milljón króna stofnframlagi í nýjan sjóð.

Markmið félagsins er að leggja frekari framlög til sjóðins í næstu framtíð. Fyrsta verkefni hans verður að fjármagna svokallaðan hornhimnubanka sem mun skapa fjölmörgum aðilum hér á landi möguleika á að hljóta verulega bót á sjóndepru. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hleypti verkefninu af stokkunum.

Stjórn sjóðsins skipa þeir Einar Stefánsson prófessor og yfirlæknir og Helgi S. Guðmundsson og Benedikt Sigurðsson hjá Samvinnutryggingum. Það er von þeirra að með auknu fjármagni nái spítalinn að fylgja áfram eftir þeirri öru tæknivæðingu í augnlækningum sem er að verða í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×