Innlent

Fólkið í skemmtibátnum var orðið skelkað

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Fólkið sem bjargað var úr skemmtibáti rétt utan við Akranes í nótt, var orðið mjög skelkað þegar hjálp barst. Óttast var um karlmann sem féll fyrir borð.

Skemmtibáturinn Stacy er tæplega tíu metrar að lengd. Níu manns voru um borð í bátnum þegar honum steytti á skeri utan siglingaleiðar um fimm hundruð metra frá landi. Lögreglan telur að fólkið hafi verið í mikilli hættu. Björgunarsveitir voru kallaðar út á fyrsta tímanum í nótt auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var í viðbragðsstöðu.

Skemmtibáturinn Stacy er tæplega tíu metrar að lengd. Níu manns voru um borð í bátnum þegar honum steytti á skeri utan siglingaleiðar um fimm hundruð metra frá landi. Lögreglan telur að fólkið hafi verið í mikilli hættu. Björgunarsveitir voru kallaðar út á fyrsta tímanum í nótt auk þyrlu Landhelgisgæslunnar sem var í viðbragðsstöðu.

Helgi Lárus Guðmundsson björgunarsveitarmaður var einn fimm manna sem komu fyrst að strandstaðnum. Hann býr rétt við höfnina og hljóp þangað um leið og útkallið barst. Á höfninni hitti hann kollega sinn af höfuðborgarsvæðinu á litlum bát. Þeir lögðu strax af stað ásamt þremur öðrum. Helgi segir töluverðan velting hafa verið á skemmtibátnum þegar þeir komu að og flestir hafi staðið í stað þess að sitja. Fólkið var allt í björgunarvestum, en enginn gúmmíbjörgunarbátur var um borð.

Hann segir yngra fólkið hafa verið skelkaðra en það eldra. Hafist hafi verið handa við að koma því í björgunarbátana þegar björgunarsveitir komu á staðinn. Einn maður hafi dottið fyrir borð og óttuðust björgunarmenn að hann hefði farið undir bátinn. Hann komst þó af eigin rammleik á skerið.

Björgunarsveitarmennirnir reyndu að koma bátnum af skerinu en tóku þá eftir að gat var á honum; „Þá ákváðum við að hætta, enda búið að bjarga mannsskap, " sagði Helgi.

Samkvæmt heimildum lögreglu er ekki grunur um að skipstjórinn hafi verið ölvaður eða undir áhrifum efna og öll réttindi hans voru í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×