Innlent

Gestafjöldi að söfnum slagar hátt í heildaraðsókn að kvikmyndasýningum

Listasafn Íslands
Listasafn Íslands MYND/365

Gestafjöldi að söfnum og skyldri starfsemi var um 1.3 milljón á árinu 2005. Til samanburðar var fjöldi gesta árið 1995, 830 þúsund. Gestkomur árið 2005 slaga hátt i heildaraðsókn að kvikmyndasýningum sem var ríflega 1.4 milljónir sama ár. Frá árinu 2000 hefur fjöldi gesta að söfnum og skyldri starfsemi aukist jafnt og þétt eftir að hafa að miklu leyti staðið í stað á seinni hluta síðasta áratugar. Svipuðu gegnir um um fjölda sýningarstaða sem hefur fjölgað úr 87 í 122 á árunum 1995-2005.

Flestar gestakomur árið 2005 voru að söguminjasöfnum eða ríflega 30 prósent. Listasöfn koma þar næst á eftir með 29 prósent gesta. Gestum söguminjasafna hefur fjölgað mest á árunum 1995 til 2005 eða um þriðjung.

Gestakomur voru flestar á söfn og skylda starfsemi á höfuðborgarsvæðinu eða 58 prósent af heildarfjölda gesta á landinu öllu. Þó hefur hlutdeild höfuðborgarsvæðisins í gestakomum dregist umtalsvert saman frá því á árinu 1995 þegar hún var 72 prósent. Frá þeim tíma hefur gestum hlutfallslega fjölgað mest á Suðurlandi og Vesturlandi

Tölur Hagstofunnar um fjölda gesta taka til safna, setra, safnvísa, fiskasafna og dýragarða, sem og fastra sýninga sem halda skrá yfir gestakomur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×