Innlent

Vantar 0.8 sekúndur upp á Ólympíulágmarkið

Oscar Pistorius
Oscar Pistorius MYND/Össur

Hinn 20 ára gamli Oscar Pistorius sem er fljótasti aflimaði maður heims er staddur hér á landi. Oskar sem er frá Suður Afríku á best 46.56 sekúndur í 400 metra hlaupi sem er hans grein. Hann vantar 0.8 sekúndur til að ná lágmarkinu fyri Ólympíuleikana. Pistorius er heimsmethafi í 100, 200 og 400 metra hlaupi í flokki aflimaðra og besti tími hans í 100 metrum er 10.91 sekúnda.

Íslandsmetið í 400 m hlaupi er 45,36 sekúndur.

Oscar hefur ekki enn fengið formlegt leyfi til láta þann draum sinn rætast að keppa gegn bestu hlaupurum heims á Ólympíuleikunum í Kína á næsta ári, þrátt fyrir að eiga góða möguleika á að ná lágmarkinu. Alþjóðlega frjálsíþróttasambandið sem setur keppnisreglurnar fyrir leikana hefur mál Oscars undir höndum. Hann notar Cheetah Flex-Foot koltrefjafætur frá Össuri hf. en raddir eru uppi um að þeir færi honum forskot á aðra hlaupara. Talsmenn Össurar segja þó engar vísindalegar sannanir fyrir því.

Oscar er staddur hér á landi til að taka þátt í þróunarvinnu með sérfræðingum Össurar hf. og einnig til að taka þátt í 400 m hlaupi ófatlaðra á landsmóti UMFÍ í Kópavogi 8. júlí næstkomandi.

Oscar fer frá Íslandi til Rómar þar sem hann mun keppa á sínu fyrsta „Golden League" móti meðal ófatlaðra hlaupara. Ef til vill er það vísbending um að Ólympíudraumurinn sé innan seilingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×