Innlent

Umferð gekk betur þessa helgi en fyrir viku

Gissur Sigurðsson skrifar

Umferð til höfuðborgarsvæðisins eftir Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi gekk mun betur í gær, en fyrir viku, þegar miklar umferðartafir urðu.

Að sögn lögreglu urðu engin slys og engin teljandi óhöpp á þessum aðal umferðaræðum. Umferðin til borgarinnar dreifðist meira í gær en fyrir viku, sem réði úrslitum um að ekki mynduðust langar biðraðir eins og þá.

Umferðin var heldur yfir meðallagi venjulegra sumarhelga , en vísbendingar eru um að meðaltalið verði nokkru hærra í sumar en í fyrrasumar. Þrátt fyrir að nokkrir væru stöðvaðir fyrir hraðakstur framan af helginni er á það að líta að löggæsla var óvenju mikil og var hraði meðal annars mældur úr þyrlu.

Löggælslumenn, sem Fréttastofan ræddi við í morgun, eru almennt á því að ef haldið verði upp álíka dampi í löggæslunni næstu helgar muni fara að draga úr umferðarlagabrotum. Eina slysið sem vitað er um, varð í Önundarfirði í gærkvöldi þegar jeppi með fjögurra manna fjölskyldu valt 50 metra út af þjóðveginum og gjör eyðilagðist. Fólkið , sem allt var í bílbeltum, slapp nær ómeitt, sem þykir mildi miðað við útreiðina á bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×