Innlent

"SMS " helgin framundan

MYND/365

Lögreglan á Selfossi vill vekja athygli foreldra á því sem kallað hefur verið "SMS hátíð" og er gjarnan haldin fyrstu helgina í júlí þegar skólakrakkar fá fyrstu sumarlaunin sín. Hátíðin hefur farið þannig fram að boð ganga á milli ungmenna, með meðal annars með SMS skilaboðum. Í þeim kemur fram hvert skuli halda og síðan er slegið upp tjaldbúðum á svæðum sem ekki eru ætluð sem tjaldstæði. Úr verður allsherjar "útihátíð", án alls skipulags og aðstöðu eins og hreinlætis og gæslu.

Á þessum samkomum hefur ölvun verið almenn, slagsmál og slys tíð, ölvunarakstur og jafnvel kynferðisbrot. Lögreglan hvetur foreldra til að sinna ábyrgð sinni og gæta barna sinna.

Gert er ráð fyrir mikilli umferð um komandi helgi. Af því tilefni og vegna hugsanlegrar SMS hátíðar mun lögreglan á suðvesturhorninu vera með sérstakan viðbúnað. Lögreglumönnum á vakt verður fjölgað og Lögregla Höfuðborgarsvæðisins mun vera með bifhjól við umferðareftirlit á stofnbrautum. Sjúkraflutningamenn á Selfossi bæta einnig við viðbúnað sinn og verður þriðji bíll þeirra mannaður hluta úr sólarhringnum. Þá mun þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands vera með sérstakan viðbúnað um helgina og fljúga með lögreglumenn til eftirlits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×