Ákvörðun Thierry Henry um að ganga í raðir Barcelona var leikmanninum mjög þungbær ef marka má fregn Daily Mail um málið í dag, en þar er haft eftir varaforseta Barcelona að 15 sinnum hafi slitnað upp úr viðræðunum í samningaferlinu.
"Viðræðurnar sigldu í strand 15 sinnum á þessum tíma og þetta var mjög erfitt fyrir Henry. Við urðum að virða það við hann að þessi ákvörðun hans var honum mjög erfið. Á hinn bóginn verð ég að segja að ég hef aldrei samið við mann sem var jafn ákafur að ganga í raðir Barcelona. Þetta voru samt erfiðustu samningaviðræður sem ég hef tekið þátt í," sagði Ferran Soriano, varaforseti Barcelona sem sá um samningaviðræðurnar.
Soriano sagði jafnframt að engar sérstakar bónusgreiðslur væru í samningi Henry og að Arsenal fengi megnið af milljörðunum tveimur strax við kaupin. Eini bónusinn í viðskiptunum er greiðsla upp á hálfa milljón punda sem Arsenal fær ef Barcelona verður Spánarmeistari næsta sumar.