Innlent

Fagnar 70 ára starfsafmæli á tónleikum við Djúpið

Frá tónleikum hátíðarinnar í gærkvöldi.
Frá tónleikum hátíðarinnar í gærkvöldi.

Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari fagnar 70 ára starfsafmæli sínu á tónleikum við Djúpið á Ísafirði í kvöld. Tónleikarnir eru hápunktur tónlistarhátíðar sem staðið hefur í bænum í vikunni.

Færustu tónlistarmenn á sínu sviði hafa tekið þátt í hátíðinni með tónleikum eða námskeiðahaldi.

Sérstakur gestur hátíðarinnar er Evan Zyporyn klarinettuleikari, tónskáld og meðlimur hljómsveitarinnar Bang On A Can. Evan er sérfræðingur í tónlist frá Bali. Svokölluð Gamelan hljóðfæri voru flutt sérstaklega til landsins af þessu tilefni.

Tinna Þorsteinsdóttir listrænn stjórnandi hátíðarinnar segir tónleikana í kvöld afrakstur hátíðarinnar. Þeir séu einstakt tækifæri fyrir tónlistarunnendur.

Auk fyrrgreinds tónlistarfólks koma meðal annars fram píanóleikararnir Vovka Stefán Ashkenazy, Davíð Þór Jónsson úr tríóinu FLÍS og Tinna Þorsteinsdóttir.

Píanó skipuðu veigamikinn sess á hátíðinni, en meðal annars var spilað á splunkunýjan Steinway flygil í Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu hátíðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×