Innlent

Ofsaakstur endaði á Búllunni

MYND/Pjetur

Þrennt var flutt á slysadeild eftir að bíll á ofsahraða hafnaði á Hamborgarabúllu Tómasar um tvöleytið í nótt. Ökumaður bílsins var í kappakstri við annan bíl á Geirsgötunni og ók í vesturátt en náði ekki beygjunni við Hamborgarabúllu Tómasar og flaug inn á bílastæðið við Búlluna.

Þar lenti hann framan á kyrrsstæðum bíl og kastaðist þaðan í Búlluna sjálfa. Lögreglumenn sem voru á ferðinni við höfnina heyrðu þegar bíllinn skall á húsinu og kölluðu til aðstoð. Þurftu slökkviliðsmenn að beita klippum til að losa ökumanninn, sem er 18 ára, úr bílnum og tók það nokkurn tíma.

Hann og stúlka sem var farþegi í bílnum voru lögð inn á gjörgæsludeild til eftirlits en þau munu ekki vera í lífshættu. Piltur sem var farþegi í bílnum fór í aðgerð vegna meiðsla sinna í nótt.

Ekki liggur fyrir hversu hratt ungi maðurinn ók þegar slysið varð en lögregla segir hann þó hafa verið á ofsahraða. Lögregla lokaði veginum í nokkurn tíma vegna slyssins með því að leggja lögreglubíl þvert á veginn. Einn ökumaður lét hins vegar ekki segjast og ók fram hjá honum og stöðvaði lögregla hann. Reyndist hann vera ölvaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×