Innlent

Umferðarráð hvetur til aðgæslu í umferðinni

MYND/Vísir

Umferðarráð hefur sent frá sér ályktun vegna sumarferða á þjóðvegum landsins.

Í henni segir að Sumarið sé tími skemmtiferða en því miður einnig margra alvarlegra slysa á þjóðvegum landsins. Umferðarráð minnir ökumenn á mikilvægi þess að aka varlega og haga akstri eftir aðstæðum hverju sinni. Á hverju ári á fjöldi saklausra vegfarenda um sárt að binda vegna glæfraaksturs á þéttskipuðum þjóðvegum.

Umferðarráð ályktar einnig vegna mikillar fjölgunar eftirvagna. Í ályktuninni beinir Umferðarráð því til ökumanna með eftirvagna að sýna sérstaka aðgæslu og huga að því að hámarkshraði með slíka vagna í eftirdragi er lægri en ella. Það krefst leikni og þjálfunar að aka með eftirvagn þar sem lengd, breidd og hæð eykst en útsýni skerðist. Við slíkan akstur eykst líka heildarþyngd ökutækisins sem lengir hemlunarvegalengd. Það er ætíð á ábyrgð ökumanns að tryggja að öryggisbúnaður eftirvagns sé í lagi.

Allir ökumenn eru minntir á að sýna sérstaka varkárni þegar farið er fram úr bíl með eftirvagn. Einnig er minnt á að sektir vegna hraðakstursbrota ökutækja með eftirvagna hafa hækkað verulega með breytingu á umferðarlögum. Við ákvörðun sektar vegna hraðabrots er nú höfð hliðsjón af aukinni áhættu sem fylgir hraðakstri ökutækja með eftirvagn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×