Innlent

Aukning á sölu nikótínvara í apótekum

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Greinileg aukning hefur orðið á sölu á nikótíntyggjói hjá apótekum eftir að reykingarbannið tók gildi á veitingastöðum síðustu helgi. Páll Guðmundsson lyfjafræðingur hjá Lyf og heilsu segir talsverða aukningu hafa orðið í sölu á nikótíntyggjóum og munnstykkjum.

„Það er engin spurning að reykingarbannið er ástæðan, maður tekur líka eftir að fólk vill eitthvað til að lifa af reyklausa tímann á barnum."

Guðmundur Óskar Guðmundsson og Sigríður Ásgeirsdóttir sátu við Austurvöll í góða veðrinu í dag. Þau reykja bæði, en segjast ekki vera á móti banninu. Það verði svo subbulegt inni og loftræsting sé oft slæm.

Sveinn Jónsson reykir ekki og fer frekar á skemmtistaðina eftir bannið. Hann verði ekki lengur gegnsósa af reykingarlykt eins og áður en bannið tók gildi.

Björn Heiðar Jónsson sagði hins vegar að bannið hefði haft þau áhrif að hann færi síður á barinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×