Innlent

Niðurlæging á Råsunda leikvanginum

AFP ImageForum

Leik Svíþjóðar og Íslands í undankeppni EM var að ljúka og er óhætt að segja að íslenska landsliðið hafi verið niðurlægt af frændum okkur frá Svíþjóð. Svíar unnu 5-0 stórsigur og ljóst að eitthvað róttækt þarf að gerast til að snúa við gengi íslenska liðsins.

Svíar áttu leikinn frá upphafi til enda og áttu strákarnir okkar sér ekki viðreisnar von. Marcus Allback skoraði fyrsta markið á 10 mínútu leiksins og kom Svíum í 1-0. Þá var það Anders Svensson sem bætti við öðru marki Svía á 40. mínútu. Olof Mellberg bætti við þriðja markinu rétt fyrir hlé. Staðan 3-0 í hálfleik.

Það sama var upp á teningunum í síðari hálfleik og Markus Rosenberg kom Svíum í 4-0 á 48. mínútu. Það var svo Allback sem að rak smiðshöggið á 51. mínútu með sínu öðru marki, sem verður að teljast eitt skrautlegasta mark sem sést hefur lengi og undirstrikaði ráðaleysi íslenska liðsins í kvöld. Ívar Ingimarsson fékk þá knöttinn í höndina inni í vítateig og gekk út frá því að dómarinn hefði flautað vítaspyrnu. Sænsku sóknarmennirnir héldu það eflaust líka, en skutu boltanum í netið og markið stóð - því dómarinn flautaði aldrei vítaspyrnu.

Niðurlæging landsliðsins er því staðreynd, liðið er með 4 stig eftir sjö leiki. Svíar eru komnir á toppinn í bili með 15 stig eftir sex leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×