Innlent

Varað við Yasmín pillunni í Danmörku

Læknar í Danmörku vara við notkun Yasmin getnaðarvarnarpillunnar vegna hættu á blóðtappa. Rekja má tvö dauðsföll ungra kvenna þar í landi beint til pillunnar. Um 1700 íslenskar konur nota hana sem getnaðarvörn.

Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Dags Dato á dönsku sjónvarpsstöðinni TV 2 í gær. Greint var frá því að hátt í í sjö hundruð danskar konur eigi við alvarleg heilsuvandamál að stríða vegna notkunar á getnaðarvarnarpillum. Aukaverkanirnar geta verið mismunandi en ein sú alvarlegasta er blóðtappi sem getur dregið konur til dauða. Grunur leikur á að getnaðarvarnarpillan Yasmín valdi meiri aukaverkunum en aðrar pillur. Talið er að dauða tveggja kvenna undir tvítugu í Danmörku nýlega megi rekja beint til Yasmín pillunnar.

Á síðustu fimm árum hafa 10 stúlkur undir tvítugu sem notuðu Yasmín pilluna verið lagðar inn á Esbjerg spítala í suður Danmörku vegna blóðtappa í lungum.

Yasmín pillan er vinsælust meðal yngri kvenna þar í landi og hefur verið auglýst að hún valdi ekki þyngdaraukningu. Louise Nilsen fékk blóðtappa 24 ára gömul fyrir fjórum árum og var nær dauða en lífi. Blóðtappinn var rakinn til Yasmín pillunnar. Þýska lyfjafyrirtækið Bayer Schering sem framleiðir Yasmín pilluna segir ekkert í henni sem ætti að auka hættu á blóðtappa en fyrirtækið neitaði viðtali við fréttaskýringaþáttinn Dags Dato í tengslum við málið. Um 1700 íslenskar konur nota Yasmín pilluna. Bæði Lyfjastofnun og Icepharma sem hefur umboðið fyrir pillunni hér á landi segja engar tilkynningar hafa borist vegna alvarlegra aukaverkana hjá íslenskum konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×