Innlent

Kínverjar fjalla um sæti Íslands í Öryggisráðinu

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Öryggisráðið greiðir atkvæði um refsiaðgerðir gegn Írönum.
Öryggisráðið greiðir atkvæði um refsiaðgerðir gegn Írönum. MYND/AFP
Kínverskir fjölmiðlar fjalla í dag um kosningabaráttu Íslendinga fyrir sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 og 2010. Í vefútgáfu dagblaðsins People Daily segir að Íslendingar þurfi stuðning 28 þjóða til viðbótar þeim 100 sem þegar hafa heitið stuðningi, til að fá öruggt sæti í ráðinu. Aðildarlöndin eru 192 og Ísland þarf stuðning 66 prósenta þeirra.

Greint er frá því að auk Íslands sækist Tyrkland og Austurríki eftir sætinu sem úthlutað er til einnar Evrópuþjóðar.

Utanríkisráðuneytið boðaði til fundar í gær þar sem kosningabaráttan var rædd og íslenskir aðilar í útrás voru hvattir til að leggja sitt af mörkum þar sem óformlegt tengslanet skipti miklu máli þegar kemur að stuðningi ýmissa þjóða.

Vitnað er í Grétar Má Sigurðsson ráðuneytisstjóra og Morgunblaðið í greininni og sagt frá þróunaraðstoð í Afríku sem hafi skilað Íslandi stuðningi nokkurra Afríkuríkja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×