Innlent

Markvissar aðgerðir í þágu barna og kröftugt efnahagslíf

Eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar snýr að markvissum aðgerðum í þágu barna, aldraðra og kröftugs efnahagslífs sagði forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í gær. Utanríkisráðherra sagði vandasama siglingu framundan, ekki síst í efnahagsmálum. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýndu stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfis og efnahagsmálum.



Geir H. Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hélt stefnuræðu sína á Alþingi í gærkvöld og reifaði þau mál sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði ríkisstjórnina leggja áherslu á kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu og bættan hag heimilanna. Þá snéri eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar að markvissum aðgerðum í þágu barna.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og formaður Samfylkingar tók í sama streng og forsætisráðherra .Vandasöm sigling væri framundan, ekki síst í efnahagsmálum. Þá vék hún að Íraksstríðinu og sagði ríkisstjórnina harma stríðið í Írak. Stuðningur fyrri ríkisstjórnar við stríðið í Írak hefði verið mistök.



Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri hreyfingar græns framboðs sagði ríkisstjórnina byrja illa í umhverfismálum en gagnrýndi Samfylkinguna harkalega fyrir að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum.



Guðni Ágústsson formaður Framsóknarflokksins sagði ríkisstjórnina ekki skilja að við vaxandi efnahagsvanda væri að etja vegna verðbólgu og viðskiptahalla. Sú ríkisstjórn sem tæki ekki á þeim vanda færi ekki vel af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×