Innlent

Meðlagsgreiðendur búsettir erlendis skulda rúmlega 3 milljarða króna

Foreldrar búsettir erlendis skulda Innheimtustofnun sveitarfélaga rúmlega þrjá milljarða íslenskra króna í meðlög. Þeir eru rúmlega sautján hundruð talsins og búsettir í 87 löndum, hlutfallslega flestir búa í Danmörku og Bandaríkjunum.

Innheimtustofnun sveitarfélaga sér um að innheimta meðlagsskuldir sem foreldrar búsettir erlendis greiða ekki. Fjöldi þeirra skuldara sem búsettir eru erlendis eru um 1750 talsins. Þeir eru búsettir í 87 löndum.

Á norðurlöndunum skulda tæplega 900 manns meðlög ef marka má tölur Innheimtustofnunar frá 2006 sem nemur rúmlega einum og hálfum milljarði króna. Tæplega fjögur hundruð skuldarar eru búsettir í hinum Evrópulöndunum og skulda tæpar 720 milljónir. Um 310 eru búsettir í Bandaríkjunum og Kanada og skulda þeir rúmlega 560 milljónir króna. Þá eru 155 búsettir í öðrum löndum sem skulda tæplega 270 miiljónir.

Af norðurlöndunum eru langflestir skuldarar búsettir í Danmörku eða 420 manns sem skulda tæpar 650 milljónir Næst flestir skuldarar eru búsettir í Bandaríkjunum eða 280 manns sem skulda tæpar 530 milljónir króna. Þar á eftir kemur Bretland þar sem 111 skuldarar eru búsettir og skulda tæpar 190 milljónir.

Meðlag á hvert barn er rúmar 200 þúsund krónur á ári og eru margar þessara skulda jafnvel áratuga gamlar. Lögmaður hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga segir helstu skýringarnar á þessum háu meðlagsskuldum vera þær að skuldirnar séu ekki afskrifaðar. Þær greiðist ekki vegna einhverra ástæðna og þegar þær safnist saman á mörgum árum geti upphæðirnar orðið töluverðar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×