Innlent

Peningamálastefna stjórnvalda gengur að sjávarútvegi dauðum

Einar Oddur Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum, segir nauðsynlegt að horfið verði frá núverandi peningamálastefnu stjórnvalda og vextir lækkaðir. Núgildandi stefna sé að ganga frá sjávarútveginum dauðum og ný ríkisstjórn hljóti að breyta stefnunni.

Einar Oddur Kristjánsson var einn stærsti útgerðarmaður á Vestfjörðum í áratugi. Hann og fjölskylda hans áttu útgerðarfélagið Hjálm á Flateyri, sem síðar sameinaðist Kambi og fleirum inni í Básafelli, sem hætti rekstri og Kambur tók við.

Í Íslandi í dag í gærkvöldi sagði Einar Oddur sjávarútvegurinn byggi við mjög hættulegar aðstæður um þessar mundir, aðallega vegna peningamála- og vaxtastefnu stjórnvalda, sem kæmi fram í því að Seðlabankanum væri gert að vinna eftir ákveðnum verðbólgumarkmiðum. Þessi stefna hefði leitt til allt of hárra vaxta og allt of hás gengis íslensku krónunnar, sem kæmi mjög illa niður á útflutningsgreinum eins og sjávarútvegi.

Ný ríkisstjórn hljóti að taka á þessu.

Mikil andstaða hefur verið við aðild Íslands að Evrópusambandinu innan Sjálfstæðisflokksins, en vaxandi þrýstingur er frá útflutningsfyrirtækjum að Íslendingar taki upp evruna í stað krónunnar.

Í dag er verð á leigukvóta mjög hátt en þeir sem eiga kvóta þurfa ekki að veiða nema um 50 prósent hans og geta leigt öðrum restina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×