Innlent

Hjúkrunarfræðingar vilja úr BHM

Félag Íslenskra hjúkrunarfræðinga stefnir á úrsögn úr Bandalagi íslenskra háskólamanna. Á fulltrúaþingi félagsins á þriðjudaginn kom fram afdráttarlaus vilji fulltrúanna til þess.

Á fundinum var samþykkt tilllaga sem miðar að því að kanna afstöðu annarra félaga innan BHM til málsins. Úrsögn hjúkrunarfræðinga myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan BHM í núverandi mynd.

Félagið er stærsta aðildarfélag BHM með um þrjátíu prósent félagsmanna eða 2700 manns. Elsa B. Friðfinnsdóttir er varaformaður félagsins og formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hún segist telja að félag hjúkrunarfræðinga geti staðið betur að sínum málum utan bandalagsins. Félagið sé stór kvennastétt og vaktavinnustétt. Það eigi í raun meiri samleið með öðrum stéttum fagfólks í heilbrigðisþjónustu en mörgum þeirra félaga sem eru innan vébanda BHM. Málið verður til umræðu á miðstjórnarfundi BHM næstkomandi miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×