Innlent

Ný flugvél Gæslunnar algjör bylting

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir nýja flugvél Gæslunnar algera byltingu í flugflotanum og líkir breytingunni frá Fokker vélinni við að skipta úr ritvél yfir í tölvu. Nýja vélin kostar rúma tvo milljarða króna en skrifað var undir kaupsamninginn í morgun.

Flugvélin er smíðuð af kanadíska fyrirtækinu Bombardier og er af gerðinni Dash 8-Q300. Flugvélinni er hins vegar breytt af kanadíska fyrirtækinu Field Aviation sem selur Landhelgisgæslunni flugvélina. Þetta er tuttuguasta og fyrsta eintakið af sérhannaðri útgáfu af Dash 8-Q300 í heiminum, en strandgæslur í Svíþjóð, Ástralíu og Japan eru meðal þeirra sem nota sams konar flugvél. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra undirrituðu kaupsamninginn fyrir Íslands hönd í Þjóðmenningarhúsinu í morgun ásamt Joseph Farrell forstjóra Field Aviation.

Flugvélin verður afhent í júlí árið 2009, eða um svipað leyti og Landhelgisgæslan fær einnig nýtt og fullkomið varðskip. Georg segir að nýja flugvélin geti lent á mun styttri flugbrautum en gamla Fokker flugvél Landhelgisgæslunnar. Nýja vélin verður búin mun fullkomnari tækjum en Gæslan hefur yfir að ráða nú.

Flugvélin kostar 2,1 milljarða króna en að auki liggja fyrir áætlanir um varahlutakaup upp á 200 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×