Innlent

Málefni Grímseyjarferju í uppnámi

Meirihluti samgöngunefndar felldi í morgun tillögu minnihlutans um að Ríkisendurskoðandi verði látinn fara yfir fjárreiður er varða væntanlega Grímseyjarferju. Málefni ferjunnar eru því áfram í uppnámi.

Asögn Kristjáns Möller alþingismanns og nefndarmanns, mættu fulltrúar Vegagerðarinnar á fundinn ásamt fulltrúum skipasmíðastöðvarinnar sem unnið hafa að viðgerð á ferjunni. Í máli þeirra staðfestist djúpstæður ágreiningur um framvindu verksins. Að sögn Kristjáns er málið því að nokkru í sömu stöðu eftir fundinn og fyrir hann. Ferjan sé í slipp í Hafnarfirði. Þar sé hætt að vinna við endurbætur á henni vegna ágreinings verkkaupa, sem er vegagerðin, og verksala, sem er skipasmíðastöðin.

Kristján segir að fulltrúar Samfylkingar og Frjálslyndra í nefndinni hafi viljað að ríkisendurskoðandi færi yfir málið. Þó ekki væri nema til að læra af þessum mistökum svo slíkt endurtæki sig ekki. Meirihlutinn hafi fellt það.

Staðan er því sú, að ferjan er enn hálf köruð í skipassmíðastöðinni og ljóst að þótt vinna hæfist eftir nokkra daga, kæmi hún of seint inn í ferðamannatímabilið.

Ferjan var keypt notuð til landsins og átti að hefja Grímseyjarsiglingar fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×