Erlent

Máli á hendur Rasmussen vegna Íraksstríðs vísað frá

Björn Gíslason skrifar
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur.
Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur. MYND/Reuters

Landsréttur í Danmörku vísaði í dag frá máli sem 26 andstæðingar Íraksstríðsins höfðuðu á hendur Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vegna þátttöku Dana í stríðinu. Hópurinn, sem nefndi sig stjórnarskrárnefndina, var stofnaður í kjölfar innrásarinnar í Írak árið 2003.

Taldi hann að forsætisráðherrann hefði brotið gegn dönsku stjórnarskránni með því að samþykkja að taka þátt í innrásinni. Taldi hópurinn að skýra ályktun vantaði frá Sameinuðu þjóðunum fyrir hernaðinum auk þess sem Danmörk hefði afsalað sér fullveldi sínu með því að fela Bandaríkjamönnum að stýra dönskum hermönnum í stríðinu.

Fram kemur á vef Jótlandspóstsins að dómurinn hafi vísað málinu frá vegna þess að ekki hefði verið sannað að þátttaka í stríðinu hefði snert hópinn meira en Dani almennt. Hópurinn hefur ákveðið að áfrýja þessum úrskurði til Hæstaréttar Danmerkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×