Innlent

30 milljónir plastpoka urðaðir á ári

San Fransiscoborg hefur nýlega bannað plastpoka í stórmörkuðum. Engin áform eru um slíkt á Íslandi, jafnvel þótt Íslendingar noti gríðarlegan fjölda af þeim á hverju ári.

Flest troðum við ofan í plastpoka mörgum sinnum í viku án þess að hugsa út í það að plastið er tvær til fjórar aldir að eyðast í jörðu. Og án þess að pæla í því að það þarf um 265 tonn af olíu til að framleiða þessa 30 milljón plastpoka sem áætlað er að við notum á ári.

Einmitt þess vegna samþykktu bæjaryfirvöld í San Fransisco í Bandaríkjunum í síðustu viku að banna einfaldlega plastpoka úr olíu í stórmörkuðum en þar í borg hafa menn náð að nota um 180 milljónir plastpoka á ári. Og þeir eru ekki fyrstir til. Áður hafa meðal annars yfirvöld í Suður-Afríku, Rúanda, Zansíbar og á Kórsíku bannað burðarpoka úr plasti. Og fleiri ríki íhuga það. Ragna Halldórsdóttir, umhverfisfræðingur og deildarstjóri hjá Sorpu, segir að menn mættu vel íhuga leiðir hér til að draga úr plastnotkun.

Borgaryfirvöld í San Fransisco vonast til að bannið hvetji stórmarkaðina til að fara að nota plastpoka úr sterkju. Plastprent framleiðir um helming af öllum plastpokum sem við notum og þar á bæ hafa menn skoðað þann möguleika.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×