Eighties-Eiríkur, skrítinn texti, duty free, réttindi dýra, Passíusálmar 29. mars 2007 17:49 Sá loks myndbandið með íslenska Evróvisjón laginu. Ég hef alltaf kunnað fjarska vel við Eirík Hauksson - hann er með skemmtilegustu mönnum - en ég held ekki að þetta atriði eigi eftir að ná langt. Sko, Evróvisjón gengur að miklu leyti út á ýkjur, skopstælingar og margæðni - ekki síst kynferðislega margræðni. Þetta myndi kannski ganga upp hjá Eiríki ef þetta væri einhvers konar útúrsnúningur, paródía, á eighties tísku. En það er það nefnilega ekki. Þetta er eighties. --- --- --- Vilhjálmur Vilhjálmsson var frábær söngvari. En það er slæmt hvað hann söng mikið af lélegum lögum. Eitt það versta hljómar nú á hverjum degi á útvarpsstöðinni Gullbylgjunni. Ég hlusta á þá útvarpsstöð af því mér leiðist yfirleitt blaður í útvarpi. Texti þessa lags er vægast sagt skrítinn, hljómar einhvern veginn svona:Ef ég kynni að skrifa eins og Alfreð Þ. og co ef ég væri eins klár og hress og Óli kallinn Jó. Hvaða menn eru þetta kynni einhver að spyrja? Og ekki batnar það síðar í textanum þegar er farið að tala um einhvern sem heitir Kiddi Finn. Við sem erum komin á miðjan aldur vitum auðvitað að þetta eru karlar sem voru forkólfar í Framsóknarflokknum á árunum milli 1970-1980. Textinn hefur sennilega verið saminn af einhverjum frústreruðum framsóknarmanni. Því aldrei hefur neinn haft spurnir af því að Alfreð Þorsteinsson kunni sérstaklega vel að skrifa - nema þá kannski ávísanir til byggingaverktaka - og Óli Jó var kannski klár en ekki var hann hress. --- --- --- Nú er komin upp talsverð hreyfing fyrir því að Fríhöfnin í Keflavík verði lögð niður eða að starfsemi hennar verði breytt. Þetta gæti orðið dálítið erfitt. Fríhöfnin er sérstakt menningarfyrirbæri á Íslandi - við erum líklega eina þjóðin sem býður upp á fríhafnarverslun þegar farþegar koma inn í landið. Þetta á rætur í haftabúskapnum sem var hér á árum áður; þá var hægt að kaupa Macintosh, Toblerone og síðar bjór í Fríhöfninni og bera þetta inn í Ísland þar sem lá blátt bann við sölu svona varnings. En nú eru dálítið aðrir tímar. Það er búið að leggja niður tollfrjálsar verslanir innan Evrópusambandsins. Og auðvitað er það fáránleg hugmynd að ríkið sé að selja alls kyns góss - myndavélar, tölvuleiki, áfengi - tollfrjálst innan girðingar meðan búðir sem eru fyrir utan neyðast til að standa í skilum með öll hin opinberu gjöld. Það er gaman að kaupa duty free en fyrirkomulagið er heimskulegt. --- --- --- "Öll dyr njóti sömu réttinda" segir formaður félags dýralækna í viðtali við Ríkisútvarpið. Formaðurinn er á móti því að meindýr séu drepin með kvalafullum hætti. Og jú, auðvitað er best að hafa sem minnsta kvöl í heiminum. Gengur ekki búddismi meðal annars út á það? En hvað þá með fiskinn í sjónum? Hvers á hann að gjalda? --- --- --- Ég var að tala um útvarp. Í gærkvöldi var ég að keyra heim frá Stykkishólmi. Mér tókst meira að segja að villast, keyrði inn í Hvalfjörð í staðinn fyrir að aka út í átt að göngunum. En þar sem ég er að villast í draugalegri birtu, ekki langt frá heimaslóðum Hallgríms Péturssonar, fór Gunnar Stefánsson einmitt að lesa Passíusálmana í útvarpinu - sálm númer fjörutíu og fjögur:Vertu, guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Það var flott. Mikið svakalega les hann þetta af miklum þunga - eða kannski er reisn orðið sem ég leita að? Mér er til efs að nokkur maður hafi gert þetta betur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Pistlar Silfur Egils Skoðanir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Sá loks myndbandið með íslenska Evróvisjón laginu. Ég hef alltaf kunnað fjarska vel við Eirík Hauksson - hann er með skemmtilegustu mönnum - en ég held ekki að þetta atriði eigi eftir að ná langt. Sko, Evróvisjón gengur að miklu leyti út á ýkjur, skopstælingar og margæðni - ekki síst kynferðislega margræðni. Þetta myndi kannski ganga upp hjá Eiríki ef þetta væri einhvers konar útúrsnúningur, paródía, á eighties tísku. En það er það nefnilega ekki. Þetta er eighties. --- --- --- Vilhjálmur Vilhjálmsson var frábær söngvari. En það er slæmt hvað hann söng mikið af lélegum lögum. Eitt það versta hljómar nú á hverjum degi á útvarpsstöðinni Gullbylgjunni. Ég hlusta á þá útvarpsstöð af því mér leiðist yfirleitt blaður í útvarpi. Texti þessa lags er vægast sagt skrítinn, hljómar einhvern veginn svona:Ef ég kynni að skrifa eins og Alfreð Þ. og co ef ég væri eins klár og hress og Óli kallinn Jó. Hvaða menn eru þetta kynni einhver að spyrja? Og ekki batnar það síðar í textanum þegar er farið að tala um einhvern sem heitir Kiddi Finn. Við sem erum komin á miðjan aldur vitum auðvitað að þetta eru karlar sem voru forkólfar í Framsóknarflokknum á árunum milli 1970-1980. Textinn hefur sennilega verið saminn af einhverjum frústreruðum framsóknarmanni. Því aldrei hefur neinn haft spurnir af því að Alfreð Þorsteinsson kunni sérstaklega vel að skrifa - nema þá kannski ávísanir til byggingaverktaka - og Óli Jó var kannski klár en ekki var hann hress. --- --- --- Nú er komin upp talsverð hreyfing fyrir því að Fríhöfnin í Keflavík verði lögð niður eða að starfsemi hennar verði breytt. Þetta gæti orðið dálítið erfitt. Fríhöfnin er sérstakt menningarfyrirbæri á Íslandi - við erum líklega eina þjóðin sem býður upp á fríhafnarverslun þegar farþegar koma inn í landið. Þetta á rætur í haftabúskapnum sem var hér á árum áður; þá var hægt að kaupa Macintosh, Toblerone og síðar bjór í Fríhöfninni og bera þetta inn í Ísland þar sem lá blátt bann við sölu svona varnings. En nú eru dálítið aðrir tímar. Það er búið að leggja niður tollfrjálsar verslanir innan Evrópusambandsins. Og auðvitað er það fáránleg hugmynd að ríkið sé að selja alls kyns góss - myndavélar, tölvuleiki, áfengi - tollfrjálst innan girðingar meðan búðir sem eru fyrir utan neyðast til að standa í skilum með öll hin opinberu gjöld. Það er gaman að kaupa duty free en fyrirkomulagið er heimskulegt. --- --- --- "Öll dyr njóti sömu réttinda" segir formaður félags dýralækna í viðtali við Ríkisútvarpið. Formaðurinn er á móti því að meindýr séu drepin með kvalafullum hætti. Og jú, auðvitað er best að hafa sem minnsta kvöl í heiminum. Gengur ekki búddismi meðal annars út á það? En hvað þá með fiskinn í sjónum? Hvers á hann að gjalda? --- --- --- Ég var að tala um útvarp. Í gærkvöldi var ég að keyra heim frá Stykkishólmi. Mér tókst meira að segja að villast, keyrði inn í Hvalfjörð í staðinn fyrir að aka út í átt að göngunum. En þar sem ég er að villast í draugalegri birtu, ekki langt frá heimaslóðum Hallgríms Péturssonar, fór Gunnar Stefánsson einmitt að lesa Passíusálmana í útvarpinu - sálm númer fjörutíu og fjögur:Vertu, guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni. Það var flott. Mikið svakalega les hann þetta af miklum þunga - eða kannski er reisn orðið sem ég leita að? Mér er til efs að nokkur maður hafi gert þetta betur.