Innlent

Spánverjar báru sigurorð af Íslendingum

Emil Hallfreðsson átti ágætan leik fyrir Íslands hönd.
Emil Hallfreðsson átti ágætan leik fyrir Íslands hönd. MYND/AFP
Íslenska landsliðið tapaði 1-0 fyrir því spænska í leik liðanna á Mallorca í undankeppni EM í kvöld. Sigur Spánverja var fyllilega verðskuldaður og hefði orðið miklu stærri ef ekki hefði verið fyrir stórleik Árna Gauts Arasonar í íslenska markinu. Það var miðjumaðurinn Andres Iniesta sem skoraði sigurmark spænska liðsins þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Íslenska liðið spilaði stífan og agaðan varnarleik í kvöld eins og reikna mátti með. Spánverjar fengu nokkur góð færi í fyrri hálfleiknum en höfðu ekki heppnina með sér. Ólafur Örn Bjarnason átti líklega hættulegasta færi íslenska liðsins rétt fyrir hlé, en hann skaut framhjá eftir að boltinn barst til hans eftir hornspyrnu.

Segja má að aðeins eitt lið hafi verið á vellinum í síðari hálfleiknum, en þar var það Árni Gautur sem var allt í öllu. Ein af bestu tilþrifum hans voru einmitt þegar hann varði vel frá téðum Ólafi Erni sem misreiknaði sig í varnarleiknum. Spánverjarnir gerðu sig hvað eftir annað líklega til að skora, en Árni varði eins og berserkur og átti stórleik í kvöld. Hann átti þó ekki svar við skoti Iniesta á 80. mínútu og niðurstaðan því enn eitt tapið hjá Íslenska liðinu - sem hefur ekki séð til sólar síðan það vann frækinn sigur á toppliði Norður-Íra í Belfast forðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×