Innlent

Hvað má og hvað má ekki?

Suma vöru og þjónustu er heimilt að selja en þær má hins vegar ekki auglýsa. Svo er annað sem leyfilegt er að auglýsa en harðbannað að ástunda.

Það er stundum vandlifað í þessu þjóðfélagi og ekki alltaf auðvelt á að henda reiður á hvað má og hvað má ekki. Með nýgerðum breytingum á hegningarlögunum er til dæmis ekki lengur lagt bann við vændi til fullrar framfærslu en hins vegar er stranglega bannað að auglýsa slíka þjónustu. Tóbaksreykingar eru á margan hátt undir sömu sök seldar. Heimilt er að kaupa og selja tóbak og reykja það á tilteknum stöðum. Á hinn bóginn harðbannað að auglýsa vöruna - nema í útlenskum fjölmiðlum - og hafa það til sýnis í verslunum.

Raunar er óheimilt að fjalla um einstakar vörutegundir til annars en að vara sérstaklega við skaðsemi þeirra. Allt annað er uppi á teningnum þegar kemur að veðmálum. Það má auglýsa en ekki ástunda. Þannig segir í lögum að sá sem geri sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu eða komi öðrum til þátttöku í þeim, skuli sæta sektum. Hins vegar hefur verið látið óátölulaust að veðmálafyrirtæki á borð við Betsson auglýsi þjónustu sína í fjölmiðlum. Þetta sérkennilega ósamræmi kristallast ekki hvað síst í áfenginu. Neysla þess er lögleg, með skilyrðum þó, en blátt bann er lagt við auglýsingum á því. Það væri hins vegar synd að segja bann þetta sé tekið mjög alvarlega því jafnvel beint fyrir framan nefið á löggjafanum blasa áfengisauglýsingarnar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×