Innlent

Elliðaá flæddi yfir bakka sína

Víða eru talsverðir vatnavextir vegna hlýinda og rigninga. Miklir vatnavextir eru í Elliðaám og við Sandskeið þessa dagana og hafa Elliðaár sem og Hólmsá flætt yfir bakka sína. Spáð er að hiti verði allt að 7 stig um helgina suð-vestanlands þannig að ár og lækir gætu bólgnað meira. Á sléttlendi hafa víða myndast stórar tjarnir og sumstaðar er eins og yfir stöðuvötn að líta því frost er í jörðu, og það kemur í veg fyrir að vatnið sjatni ofan í jarðveginn. Þá hefur hálku verið að taka upp af vegum og er hún horfin á láglendi, en hálkublettir eru sumstaðar enn á suður og vesturlandi, einkum á fjallvegum.

Af færð á öðrum stöðum á landinu er það að frétta að á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir, ófært er um Eyrarfjall og á Norður- og Austurlandi er hálka eða hálkublettir á fjallvegum. Þá hefur Vegagerðin takmarkað ásþunga vörubifreiða við 10 tonn um allt land vegna hættu á slitlagsskemmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×