Innlent

Fiskverð upp úr öllu valdi

Fiskverð fór upp úr öllu valdi á innlendum fiskmörkuðum í síðustu viku og hefur aldrei verið hærra í krónum talið. Verð á leigukvóta hefur líka náð sögulegum hæðum.

Verð fyrir kílóið af nýveiddum fiski upp úr bát var að meðaltali tæpar 193 krónur fyrir allar tegundir og stærðir. Meðalverð á slægðum góðum þorski var 267 krónur, tæpar 200 krónur fyrir góða óslægða ýsu og 153 krónur fengust fyrir slægðan steinbít, svo þrjár söluhæstu tegundirnar séu nefndar.

Hástökkvarinn í verði er hinsvegar þykkvalúran, en tæpar 440 krónur fengust fyrir kílóið af þeim eðal flatfiski.

Góð veiði hefur verið hjá bátum víða við landið þegar gefið hefur á sjö undanfarnar vikur þannig að mjög hefur gengið á þorskkvóta þeirra.

Það hefur valdið því að leiguverð fyrir þorsk hefur stór hækkað samfara minnkandi framboði. Marga marga er farið að bráðvanta þorskkvóta, vegna þorsks sem veiðist með á ýsu- eða ufsaveiðum.

Kílóverð í leigu er nú komið upp í 190 krónur og stefnir hraðbyri í 200 krónur, sem er hærra en nokkru sinni fyrr.

Allt er þetta mögulegt þar sem fiskverð fer enn hækkandi á heimsmarkaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×