Handbolti

Óeirðaseggir hugsanlega útilokaðir frá leikjum

Framkvæmdastjóri handknattleikssambands Íslands segir að óeirðaseggirnir sem stofnuðu til slagsmála á bikarúrslitaleik Stjörnunnar og Fram í gær, verði útilokaðir frá handboltaleikjum í framtíðinni.

Það var í upphafi síðari hálfleiks sem stöðva þurfti leikinn þegar slagsmálin bárust inn á völlinn. Atburðir sem þessi eru mun algengari á íþróttaviðburðum erlendis en því miður nú orðin staðreynd hér á Íslandi. Samkvæmt heimildum íþróttadeildar voru það fimm stuðningsmenn Stjörnunnar sem hófu handalögmálin. Myndatökumaður Stöðvar tvö náði myndum frá upphafi slagsmálanna. Á þeim má sjá einn upphafsmannanna slá meðlim öryggisgæslunnar ítrekað en sá er önnum kafinn við að halda einum ofbeldismannanna í skefjum. Skömmu síðari lætur hann aftur til skarar skríða og hörfar svo í burtu án þess að vera vísað úr höllinni en þrír mannanna voru handteknir.

Á myndunum sést einnig að einn meðlimur öryggisgæslunnar gekk lengra en aðrir. HSÍ hefur beðið Stöð 2 um afrit af þessum myndum og mun afhenda þær lögreglunni sem mun rannsaka málið frekar.

Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri handknattleikssambands Íslands, segir að vel komi til greina að útiloka hlutaðeigandi frá handboltaleikjum í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×