Enski boltinn

Jol og Mourinho kvíða fyrir síðari leiknum

Martin Jol hefur í nógu að snúast þessa dagana.
Martin Jol hefur í nógu að snúast þessa dagana. MYND/Getty

Martin Jol og Jose Mourinho, knattspyrnustjórar Tottenham og Chelsea, hlakkar ekki mikið til síðari leiks liðanna í ensku bikarkeppninni á mánudag í næstu viku en þá þurfa liðin að mætast öðru sinni eftir 3-3 jafnteflið á Stamford Bridge í dag. Þjálfararnir segja álagið á leikmönnum sínum vera með ólíkindum þessa dagana.

"Ég vill ekki bæta við enn einum leiknum. Alls ekki. En á sama tíma vill ég frekar spila aftur en að falla úr keppni," sagði Mourinho og huggaði sig við að það styttist í endurkomu John Terry og Joe Cole í lið Chelsea. "Terry er klár í næstu viku og Cole verður klár eftir 2-3 vikur," sagði Mourinho.

Tottenham mætir Braga í Evrópukeppninni á miðvikudag og á leik í ensku deildinni á laugardag. Leikurinn gegn Chelsea hefur verið settur á mánudaginn í næstu viku en Jol vonast til þess að hann verði færður fram á þriðjudag.

"Það er hræðilegt að hugsa til þess að við þurfum að spila þrjá leiki á fimm dögum. Chelsea á við sama vanda að glíma. Vonandi verður leikurinn spilaður á þriðjudeginum, það yrði miklu betra."

"Með því að spila svona ört er verið að drepa leikmennina okkar. Hjá mér eru 6-7 leikmenn ómissandi og þeir eru núna í búningsklefanum að glíma við smávægilegar tognanir og eymsli. Þeir harka það af sér, en þetta er ekki hægt til lengdar," sagði Jol.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×