Enski boltinn

Middlesbrough og Man. Utd. þurfa að mætast öðru sinni

George Boateng fagnar marki sínu á Riverside í dag.
George Boateng fagnar marki sínu á Riverside í dag. MYND/Getty

Middlesbrough og Manchester United skildu jöfn, 2-2, í hörkuleik á Riverside nú undir kvöld en liðin áttust við í 8-liða úrslitum ensku bikarkeppninnar. Úrslitin þýða að liðin verða að eigast við öðru sinni, þá á heimavelli Old Trafford, til að skera úr um hvort liðið kemst áfram í undanúrslit keppninnar.

Wayne Rooney kom Man. Utd. yfir á 23. mínútu leiksins en heimamenn, sem komu grimmir til leiks og voru greinilega ekki á því að bera neina virðingu fyrir toppliði úrvalsdeildarinnar, komust yfir með því að skora á síðustu mínútu fyrri hálfleiks og fyrstu mínútu þess síðari. Fyrst var að verki Lee Cattermole og síðan George Boateng.

Boateng breyttist síðan úr hetju í skúrk skömmu síðar þegar hann handlék knöttinn innan vítateigs og vítaspyrna var dæmd. Það var Cristiano Ronaldo sem tryggði Man. Utd. jafntefli með marki úr vítaspyrnu á 68. mínútu.

Heimamenn gerðu harða atlögu að marki Man. Utd. á síðustu mínútunum en inn vildi boltinn ekki og því er ljóst að liðin munu þurfa að mætast á ný í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×