Enski boltinn

Mourinho hefur litlar áhyggjur af samningamálum

Jose Mourinho er slakur á því þessa dagana.
Jose Mourinho er slakur á því þessa dagana. MYND/Getty

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hefur litlar áhyggjur af samningaviðræðum nokkurra sinna lykilmanna við stjórn félagsins og heldur fast í þá trú að hann muni halda öllum sínum bestu mönnum. Stjórnarformaður Chelsea segist ekki á þeim buxunum að sleppa hendinni af Frank Lampard.

"Ég tel að félagið sé í góðri stöðu. Það eru engir leikmenn í mínu liði sem verða samningslausir í sumar. Því þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur enn sem komið er," segir Mourinho, en þeir Lampard og fyrirliðinn John Terry eiga rúm tvö ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið og gætu, samkvæmt nýjum reglum FIFA, keypt sig út úr síðustu tveimur árum samningstímans.

"Allir vita að við viljum halda þeim leikmönnum sem mynda hrygginn í okkar liði. Chelsea mun gera allt sem í valdi félagsins stendur til að halda þeim hjá sér," sagði Mourinho.

Stjórnarformaðurinn Peter Kenyon sagði að viðræður við Lampard um nýjan samning hæfust á allra næstu dögum. "Það er gríðarlega mikilvægt að Lampard verði áfram. Hann og fleiri leikmenn eru ómissandi. Hvar er hægt að finna betri miðjumann en hann? Hvaða varnarmaður er betri en Terry? Hvaða markvörður getur komið í stað Petr Cech? Við viljum hafa þessa menn hjá okkur í mörg ár til viðbótar," sagði Kenyon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×