Enski boltinn

Giggs segir Man. Utd. ekki mega slaka á

Ryan Giggs hefur skorað mikilvæg mörk fyrir Man. Utd. að undanförnu.
Ryan Giggs hefur skorað mikilvæg mörk fyrir Man. Utd. að undanförnu. MYND/Getty

Ryan Giggs, miðvallarleikmaður Manchester United, segist hafa nægilega mikla reynslu til að fullyrða að barátta liðsins við Chelsea um enska meistaratitilinn eigi eftir að þróast í nýja átt áður en tímabilið er á enda. Giggs segir að þrátt fyrir að Man. Utd. sé með níu stiga forskot á toppi deildarinnar séu úrslit deildarinnar fjarri því að vera ráðin. 

“Við búumst ekki við titlinum. Við leyfum okkur ekki að hugsa þannig,” sagði Giggs í samtali við BBC á Bretlandi í morgun. “Ég hef verið nógu lánsmaður til að vinna deildina nokkrum sinnum og ef það er eitthvað sem ég fengið út úr þeirri reynslu er að vita að það er aldrei hægt að slaka á. Við eigum eftir að tapa stigum í leikjum sem við ættum að vinna áður en tímabilið er á enda og það eiga eftir að verða einhverjar sviptingar,” segir Giggs.

“Hins vegar er lykilatriði í þeirri stöðu að hafa karakterinn til að láta það ekki hafa áhrif á sig, halda haus og klára tímabilið með sóma. Við stefnum á sigur í öllum þeim keppnum sem við erum í (Enska deildin, bikarkeppnin og Meistaradeildin) og ég held að liðið eigi möguleika.”

Við erum að skapa fullt af færum í leikjum okkar og skora mikið af mörkum. Fótboltinn er góður og ofan á það hefur vörnin verið mjög sannfærandi. Þetta lítur vel út fyrir okkur,” segir Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×