Enski boltinn

Almunia vill verða markvörður númer eitt

Manuel Almunia hefur staðið sig vel í bikarleikjum Arsenal á tímabilinu.
Manuel Almunia hefur staðið sig vel í bikarleikjum Arsenal á tímabilinu. MYND/Getty

Markvörðurinn Manuel Almunia hjá Arsenal telur að úrslitaleikurinn gegn Chelsea í deildabikarnum í dag sé tilvalin vettvangur fyrir sig að sanna tilverurétt sinn í byrjunarliði Arsenal. Almunia hefur verið varamaður fyrir Jens Lehman undanfarin ár en nú þegar margt bendir til þess að þýski markvörðurinn sé á förum frá liðinu vill Almunia sýna stjóranum Arsene Wenger að hann sé rétti arftakinn.

Almunia verður í liði Arsenal í dag, eins og hann hefur alltaf verið í leikjum Arsenal í deildabikarnum. Samningur Lehman við Arsenal rennur út í sumar og hafa forráðamenn félagsins þráast við að veita þeim þýska tveggja ára langa samninginn sem hann vill. Arsenal hefur verið orðað við fjölda markvarða síðustu vikur og mánuði en Almunia vill meina að hann geti vel staðið sig sem aðalmarkvörður liðsins.

"Allir leikir þar sem ég fæ tækifæri eru mikilvægir en úrslitaleikir eru náttúrulega sérstaklega mikilvægir. Nú þarf ég að sýna stjóranum að ég get verið markvörður númer eitt," sagði Almunia.

"Það getur verið mjög svekkjandi þegar maður spilar mjög vel í bikarnum en þarf síðan að sætta sig við sæti á bekknum í næsta deildarleik. Það er ekki auðvelt að vera fyrsti markvörður hjá Arsenal - sá markvörður þarf nánast að vera fullkominn. En ég veit að ég hef það sem þarf til að standa sig sem aðalmarkvörður Arsenal," sagði Almunia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×