Enski boltinn

Ronaldo: Mjög ánægður með markið

Leikmenn Man. Utd. fagna marki Cristiano Ronaldo í dag.
Leikmenn Man. Utd. fagna marki Cristiano Ronaldo í dag. MYND/Getty

Cristiano Ronaldo var kampakátur eftir sigur Man. Utd. á Fulham í dag en hinn sjóðheiti portúgalski vængmaður skoraði sigurmark sinna manna eftir stórkostlegt einstaklingsframtak á lokamínútum leiksins. Ronaldo viðurkenndi þó að heppnin hafi verið með Man. Utd. í leiknum.

“Mér líður mjög vel. Ég skoraði mikilvægt mark og er mjög ánægður,” sagði Ronaldo. “Þetta var vissulega heppni. Fulham spilaði mun betur í síðari hálfleik en svona er fótboltinn. Það er ekki alltaf nóg að spila betur en andstæðingurinn,” sagði Ronaldo, en hann fékk boltann á 88. mínútu á eigin vallarhelmingi, brunaði upp allan völlinn og fór framhjá tveimur varnarmönnum áður en hann skoraði með hnitmiðuðu skoti í hornið.

“Við erum núna níu stigum á undan Chelsea og það er gríðarlega mikilvægt fyrir liðið,” sagði Ronaldo en athygli vakti að hann hljóp til argentínska varnarmannsins Gabriel Heinze þegar hann fagnaði markinu. “Það var vegna þess að fyrir leikinn hafði hann sagt mér að ég myndi skora í leiknum. Ég var að þakka honum traustið,” sagði Ronaldo eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×