Enski boltinn

Arsenal í samstarf við Colorado Rapids

Enska úrvalsdeildarliðið Arsenal og bandaríska atvinnumannaliðið Colorado Rapids tilkynntu opinberlega í morgun að félögin hyggðust hefja samstarf sín á milli. Samstarfið felst í því að styrkja vörumerkið Arsenal í Bandaríkjunum ásamt því að liðin munu koma til með að skiptast á efnilegum leikmönnum.

Að sögn forráðamanna félaganna er ekki síður um viðskiptalegt samstarf að ræða þar sem Arsenal hyggst leggja meiri áherslu á markaðsmál í Bandaríkjunum með aðstoð yfirmanna Rapids. Í staðinn mun bandaríska félagið fá góð ráð í þjálfun og uppbyggingu ungra leikmanna, ásamt því að fá lánaða unga og efnilega leikmenn  frá Arsenal.

Auk þess mun Rapids-liðið koma í æfingaferð til Arsenal á undirbúningstímabili sínu í mars nk. og njóta leiðsagnar þjálfara Arsenal.

“Við erum stoltir af því að kynna þetta samstarf og við höfum trú á því að bæði félög munu græða umtalsvert á því,” sagði Keith Edelman, forstöðumaður markaðsmála hjá Arsenal, í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×