Enski boltinn

Ronaldo fer ekki fet

Ronaldo hefur verið frábær í vetur.
Ronaldo hefur verið frábær í vetur.

Portúgalski vængmaðurinn Cristiano Ronaldo er ekki á förum frá Man. Utd. í bráð, að því er knattspyrnustjórinn Alex Ferguson segir. Ferguson ræddi við fjölmiðla í morgun í þeim tilgangi að binda enda á þær sögusagnir sem bendla Ronaldo við sölu til Barcelona eða Real Madrid í sumar.

Jorge Mendes, umboðsmaður Ronaldo, sást á snæðingi með Txiki Begiristain, yfirmanni knattspyrnumála hjá Barcelona, í vikunni og ýtti það undir orðróminn um að Ronaldo væri á leið til Barcelona. Ferguson segir hins vegar að svo verði ekki.

"Strákurinn er ánægður hér. Það er allt í góðu og engin vandamál. Svona vangaveltur um leikmenn eru einfaldlega hluti af boltanum og þær verða ekki umflúnar," sagði Ferguson og gerði lítið úr fréttum fjölmiðla.

"Stundum tek ég upp dagblöðin og les um leikmenn sem ég á að vera að kaupa. Mér þykir það alltaf jafn fyndið. Þetta eru alltaf sögusagnir og vangaveltur sem eiga sér engar stoðir í raunveruleikanum. Það á við í máli Ronaldo."

Ferguson sagði að Man. Utd. hefði upp á allt að bjóða sem knattspyrnumaður gæti sóst eftir. "Nema kannski loftslagið, sem er vissulega betra á Spáni. En þegar maður hugsar um hvað er í boði hjá Man. Utd., 67 þúsund áhorfendur í hverri viku, þá er það eitthvað sem fæst ekki allstaðar. Real Madrid, Barcelona og AC Milan fylla ekki sína leikvanga í hverri viku," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×