Innlent

Tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna

Brynhildur Þórarinsdóttir hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín.
Brynhildur Þórarinsdóttir hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín.

Félag skólasafnskennara hefur tilnefnt Brynhildi Þórarinsdóttur til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2007 af Íslands hálfu. Brynhildur er tilnefnd fyrir bækurnar Njálu, Eglu og Laxdælu. Í þeim segir hún á afar skemmtilegan og aðgengilegan hátt frá þessum þekktu og vinsælu Íslendingasögum. Þannig veitir hún börnum og unglingum innsýn í heim fornsagna. Dómnefnd telur bækurnar afar verðugt framlag til norrænna barnabókmennta.

Brynhildur Þórarinsdóttir er M.A. í íslenskum bókmenntum og lauk kennsluréttindanámi frá Háskólanum á Akureyri árið 2005 þar sem hún starfar nú. Brynhildur er fædd árið 1970 og hefur áður hlotið viðurkenningar fyrir verk sín m.a. íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir "Leyndarmál ljónsins". Hún er bæjarlistamaður Akureyrar júní 2006-maí 2007.

Áður hafa íslendingarnir Guðrún Helgadóttir, Kristín Steinsdóttir og Ragnheiður Gestsdóttir hlotið verðlaunin. Þau verða veitt í Danmörku í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×