Innlent

Enn rökrætt um framboð Framtíðarlandsins

Frá fundinum í kvöld.
Frá fundinum í kvöld. MYND/Sigurður
Mjög fjölsóttur fundur Framtíðarlandsins stendur enn yfir á Hótel Loftleiðum. Mörg hundruð manns mættu á fundinn en gildan atkvæðisrétt höfðu einungis þeir sem gerst höfðu félagar fyrir tólf á hádegi á mánudaginn var. Á fundinum var borin upp tillaga stjórnar um að boðið yrði fram í nafni Framtíðarlandsins í næstu alþingiskosningum og drög að stefnu þar að lútandi var lögð fram.

Miklar umræður spunnust í kjölfar þess að tillagan var borin upp og sér ekki fyrir endann á þeim ennþá. Harða andstöðu mátti greina hjá mörgum á mælendaskrá, meðal annars hjá þeim sem hafa verið áberandi í flokkstarfi annarra flokka, svo sem Hjörleifi Guttormssyni, sem var þingmaður og ráðherra fyrir Alþýðubandalagið. Hann er einnig einn helsti hugmyndafræðingur Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í umhverfismálum.

Þá tók einnig til máls Dofri Hermannsson sem hefur starfað ötullega að umhverfismálum innan Samfylkingarinnar og lagðist líkt og Hjörleifur gegn sérstöku framboði framtíðarlandsins. Dofri gagnrýndi einnig að Ómari Ragnarsyni, sem verið hefur einna mest áberandi af forsprökkum Framtíðarlandsins, skildi hafa verið meinað að taka til máls og greiða atkvæði á fundinum þar sem hann væri ekki gildur félagi í Framtíðarlandinu.

Ómar Ragnarsson lýsti því yfir í kvöldfréttum Stöðvar tvö að hann myndi leggjast gegn sérstöku framboði Framtíðarlandsins en væri annars hlynntur því að nýtt framboð umhverfissinna kæmi fram á sjónarsviðið undir formerkjum hægri grænnar stefnu. Eftir japl og jaml og fuður var Ómari þó leyft að stíga í pontu þar sem hann lýsti fyrri skoðun sinni og dró hvergi af sér.

Að lokum vakti athygli að Guðrún Ásmundsdóttir, einn helsti stuðningsmaður Margrétar Sverrisdóttur, fyrrum framkvæmdastjóra Frjálslynda flokksins og ritara, sem nú hefur sagt skilið við flokkinn, lýsti yfir eindregnum stuðningi við að Framtíðarlandið byði fram í kosningum í vor. Þegar er byrjað að kjósa um tillöguna en þorri fundarmanna hefur ekki kosið þar sem umræður standa enn yfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×