Innlent

Ítalskur svikahrappur kostar TM tíu milljónir

Tryggingamiðstöðinni hf var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag gert að greiða Íslensku umboðssölunni hf tæpar tíu milljónir vegna stolins fiskfarms sem var í eigu Íslensku umboðssölunnar hf. Málsatvik eru þau að Ítala tókst að villa á sér heimildir þannig að hann fékk afgreiddan fiskfarm frá íslensku umboðssölunni fyrir rúmar 110 þúsund evrur.

Maðurinn gaf sig út fyrir að vera útibússtjóri tiltekins banka og fékk þannig afhent skjöl og frumrit farmbréfs sem hann framvísaði til að leysa vöruna út í Rotterdam.

Ekki kom strax upp grunur um að vörunni hafi verið stolið, en Tryggingamiðstöðin tryggði farminn.

Ítalinn var ákærður og fóru réttarhöld fram á Ítalíu. Samkvæmt Ítalska dómnum var frumriti farmskírteinisins, sem Eimskip gaf út, stolið áður en það komst í banka á Ítalíu.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi einnig málskostnað Íslensku umboðssölunnar, 450 þúsund krónur, á Tryggingamiðstöðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×