Innlent

Reykjanesbær hunsar mengun í Reykjaneshöll

Guðjón Þórðarson á æfingu í Reykjaneshöll.
Guðjón Þórðarson á æfingu í Reykjaneshöll. MYND/Valgarður Gíslason

Niðurstöður mælinga Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja í Reykjaneshöll hafa leitt í ljós að svifryksmengun er langt yfir heilsuverndarmörkum. Þetta segir Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóri eftirlitsins. Hann segir að heilsuverndaryfirvöld hafi gefið bænum frest til úrbóta sem rann út í síðustu viku. Bæjaryfirvöld hunsi eftirlitið í þessu máli.

Ekkert bóli hins vegar á svörum frá bænum og telur hann eftirlitið hundsað í þessu máli.

Það sem veldur svifryksmenguninni í Reykjaneshöllinni er þurrsandur í gervigrasinu sem þyrlast upp í andrúmsloftið. Grasið var upphaflega gert fyrir útivöll, en ekki eru til almennilegir staðlar fyrir svifryksmengun innanhúss. Magnús segir að þess vegna þurfi að styðjast við utanhússstaðla en ljóst sé að ástandið sé óviðunandi.

Ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármagni til úrbóta í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Ljóst þykir að skipta þarf um gervigrasið en kostnaður af því gæti numið allt að 30 milljónum króna. Á meðan halda börn og unglingar áfram að æfa í höllinni, sem þó er talin varhugaverð heilsu fólks.

Heilbrigðisnefnd er sá aðili sem tekur ákvörðun um hvort loka á höllinni. Magnús segir að ljóst sé að henni verði lokað á endanum ef ekkert verður að gert.

Ekki náðist í Árna Sigfússon bæjarstjóra Reykjanesbæjar þegar fréttastofa reyndi að ná tali af honum í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×