Innlent

Kaupa sex Airbus-breiðþotur

Flugfélag Arngríms Jóhannssonar og Hafþórs Hafsteinssonar, Avion Aircraft Trading, samdi í dag um smíði sex Airbus-breiðþotna. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt flugfélag kaupir nýjar Airbus-þotur beint frá verksmiðjunum.

Þetta eru fragtþotur af nýrri gerð Airbus A330-200 en Avion er fjórða fyrirtækið í heiminum sem semur um kaup á þessari tegund flugvéla. Kaupverð er ekki gefið upp en leiða má líkur að því að hver vél kosti nærri einn milljarð króna. Það á enn eftir að smíða vélarnar en þær verða afhentar á árunum 2010 til 2011. Fyrir hönd Avion Aircraft Trading undirrituðu samningana í höfuðstöðvum Airbus í Toulouse í Frakklandi í dag, þeir Hafþór Hafsteinsson stjórnarformaður og Davíð Másson forstjóri.

Þegar kemur að nýsmíði á þotum hafa Íslendingar fram til þessa ætíð samið við hina bandarísku Boeing. Þetta eru því viss tímamót í íslenskri flugsögu að keypt sé af hinu evrópska Airbus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×