Innlent

Fjármagnstekjufólk greiði til samfélagsins

Skattkerfið þarf að ná til fólks sem hefur fjármagnstekjur en greiðir ekki venjulega skatta, segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. Á þriðja þúsund landsmanna hefur eingöngu fjármagnstekjur og borgar ekkert til sveitarfélaganna.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa 6600 manns meirihluta tekna sinna af fjármagnstekjum og þar af lifa 2300 eingöngu af fjármagnstekjum. Þetta fólk greiðir ekkert útvar, engan tekjuskatt, einungis 10% fjármagnstekjuskatt.

Steingrímur J. Sigfússon hefur lagt fram frumvarp sem tekur á því að fólk með umtalsverðar fjármagnstekjur sé gert að reikna sér laun eins og sjálfstæðir atvinnurekendur. Hann segir frumvarpið ekki ganga út á að eltast við þá sem eru með óverulegar fjármagnstekjur heldur þá sem hafa umtalsverðar tekjur þannig að þeir verði alvöru skattgreiðendur. Stoppa þurfi upp í þetta gat í skattkerfinu, og þó fyrr hefði verið.

Steingrímur segir menn hafa verið svifaseina í að bregðast við þessari nýju stétt fólks sem ekki telur fram launatekjur. Ríkisstjórnin undirbýr frumvarp sem kveður á um að fjármagnstekjufólk skuli greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra og nefskatt Ríkisútvarpsins. Sú hugmynd gengur ekki nógu langt segir Steingrímur.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×