Erlent

Hillary klaufaleg á blaðamannafundi

Hillary Clinton forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum fékk óvænt viðbrögð á fjöldafundi í Iowa í Bandaríkjunum í gær, vegna ummæla sem hún viðhafði um hæfni sína til að meðhöndla illa menn. Hillary byrjaði fundinn á alvarlegum nótum og sagðist vera í forsetaslagnum af alvöru, hún ætlaði að vinna. Hún gagnrýndi George Bush Bandaríkjaforseta harðlega fyrir stríðið í Írak.

Eftir spurningu úr sal svaraði Hillary furðulega þegar hún sagði: "Við mætum mörgum vondum mönnum. Osama bin Laden kemur upp í hugann. Og hvað í forsögu minni undirbýr mig fyrir að eiga við illa og vonda menn." Áhorfendur hlóu og Hillary með.

Hún reyndi síðan að útskýra hvað hún átti við á blaðamannafundi síðar um daginn og sagði: "Mér fannst ég vera fyndin, þið vitið, þið segið mér að vera léttari og að vera fyndin."

Henni fannst það hins vegar ekki fyndið þegar fréttamenn spurðu hvort ummælin ættu við Bill Clinton, eiginmann hennar. Þá svaraði hún: "Látiði ekki svona."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×