Erlent

Gámar fjarlægðir af strandaða flutningaskipinu

Fjöldi björgunarbáta hóf í dag að fjarlægja meira en tvö þúsund gáma af  flutningaskipinu MSC Napoli, sem strandaði undan ströndum Devon á Englandi 19 janúar. Risastór fljótandi krani er notaður til að færa gámana, sem innihalda allt frá barnableyjum til mótorhjóla.

Verkið er bæði tímafrekt og vandasamt, en skipið má ekki breyta um stöðu þegar gámarnir eru teknir af því. Að sögn AP fréttastofunnar mun verkefnið taka þó nokkra mánuði.

Flutningaskipið strandaði fyrir rúmri viku við Sidmouth í suðvesturhluta Devon sýslu. Um tíma var óttast að það myndi sökkva eftir óveður í Atlantshafi. Meira en 50 gámum hefur skolað á land og mikið af innihaldi þeirra hefur verið tekið ránshendi.

Umhverfisaðilar hafa gengið 160 kílómetra strandlengju og reynt að bjarga fuglum eftir að olía lak úr fraktskipinu.

Svæðið er hluti af 150 kílómetra strandlengju sem UNESCO hefur sett á heimsminjaskrá vegna þess hversu auðugt það er af steingervingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×