Erlent

Safna fé fyrir Líbanon

Líbönsku ríkisstjórninni hefur verið lofað jafnvirði tvö hundruð milljarða íslenskra króna til enduruppbyggingar landsins. Þetta var ákveðið í morgun á alþjóðlegri ráðstefnu sem nú fer fram í Frakklandi. Stjórnarandstæðingar segja að með fjárstuðningnum sé verið að hlaupa undir bagga með stjórnvöldum, ekki þjóðinni.

Ráðstefnan um efnahag Líbanons hófst í París í morgun en hana sækja ráðamenn fjörtíu ríkja sem leggja líbönskum stjórnvöldum fé til endurreisnar samfélagsins. Það var í rúst eftir borgarastyrjöldina á árunum 1975-1990 og þegar uppbygging þess var komið nokkuð á veg skall á stríð Hizbollah-samtakanna og Ísraela á síðastliðið sumar. Innviðir þjóðfélagsins voru sprengdir aftur um nokkra áratugi og heilu þorpin í suðurhluta landsins voru eyðilögð. Af þessum sökum eru skuldir Líbanons rúmlega 2.500 milljarðar króna, rétt tæplega tvöföld þjóðarframleiðsla landsins.

Tilgangur Parísarráðstefnunnar er að aðstoða líbönsku ríkisstjórnina við að koma sér úr mestu þrengingunum. Bandaríkin, Frakkland og Evrópusambandið höfðu fyrir ráðstefnuna lofað 150 milljörðum króna og í morgun snöruðu Sádi-Arabar út jafnvirði sjötíu milljarða króna. Með þessu er vonast til að meiri stöðugleiki komist í Líbanon en mjög hefur verið sótt að ríkisstjórn Fuad Saniora undanfarna daga. Í fyrradag lamaðist samfélagið eftir að Hizbollah-samtökin og bandamenn þeirra efndu til verkfalla um allt land og dóu þrír í átökum þeim tengdum. Því kemur ekki á óvart að stjórnarandstæðingar segi raunverulegan tilgang ráðstefnunar að tryggja stjórninni áframhaldandi völd, ekki að lina þjáningar líbönsku þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×